Stefánshellir

– Forsagan af verkefninu
Árni B. Stefánsson augnlæknir kom til okkar og vildi athuga hvort einhver samstarfsflötur væri á því að skanna hraunhella. Þetta byrjaði sem ósköp einföld fyrirspurn sem vatt aldeilis upp á sig. Það fór svo að við fórum með honum í prufuferð að skanna Leiðarenda sem er rétt fyrir utan Hafnarfjörð. Við skönnuðum lítinn hluta af Leiðarenda og settum saman líkan af þeim hluta sem gekk framar vonum og í kjölfarið ákveðum við að fara í það verkefni að skanna Stefánshelli í Hallmundarhrauni. Við fórum af stað í þetta verkefni af áhuga og hugsjón. Þetta er gert til að sýna fram á fegurðina í hraunhellum landsins, þörfina á því að vernda þá og fræða almenning um það hversu sérstakir og viðkvæmir þeir í raun eru.

360° mynd innan úr Stefánshelli fengin úr ljósmyndum Faro skannans.

 

Flug í gegnum 3D módelið af Stefánshelli.

– Hellirinn Stefánshellir
Stefánshellir í Hallmundarhrauni er efri hluti Surtshelliskerfisins, hellirinn er 1520m langur. Hann er nokkuð flókið völundarhús og ekki auðvelt að rata sé maður ekki vel útbúinn.
Árið 1917 fann Stefán Ólafsson frá Kalmanstungu Stefánshelli, en hellirinn var á þessum tíma óþekktur þálifnandi mönnum, þó að ýmsar vísbendingar gefi til kynna að einhverjar mannaferðir hafi verið um hellinn.

 

– Náttúruvernd
Dropsteinsmyndanir eru viðkvæmustu minjar íslenskrar náttúru þær hafa verið friðaðar síðan 1974. Dropsteinsmyndarnir eru ein elsta friðlýsing minja á Íslandi. Eins og Árni B. Stefánsson hefur oft ítrekað við okkur þá eru dropsteinsmyndarnir viðkvæmustu minjar íslenskrar náttúru. Og eftir að eytt talsverðum tíma í Stefánshelli og gengið þar um og skoðað hann mjög vel þá sést hversu miklar skemmdir hafa verið unnar á hellinum í gegnum árin. Ótal dropstrá úr lofti eru brotin, þau eru gríðarlega viðkvæm og hafa látið verulega á sjá og eru nánast með öllu horfin. Stærri myndanir s.s. dropasteinar eru líka að mestu horfnar og margar myndanir hafa ekki verið brotnar óvart því verulegt afl þarf til að brjóta sumar. En þær eru að mestu horfnar og eftir situr brotsárið.
Meðal þess sem við viljum vekja athygli á með þessu verkefni er að sýna fegurðina í hellinum og um leið skemmdirnar. Ágangur í hraunhella hefur verið mikill og skemmdirnar óafturkræfar, það er þó hægt að kortleggja viðkvæma hella til að m.a. sýna fram á þörfina á verndun og varðveislu þeirra.

Video sem sýnir örlítið brot af hluta hellisins og þarna má meðal annars sjá þar sem dropstrá úr lofti eru illa farin og gróf brot þar sem áður voru stórar myndanir á gólfi.

 


Á mörgum stöðum í hellinum voru býsna krefjandi aðstæður fyrir bæði okkur og skannann.
– Skönnunin
Verkefnið er gríðarlega umfangsmikið og stærsta skönnunin sem við höfum tekist á við. Skönnunin sjálf í hellinum er tæknilega mjög krefjandi og mikillar sérþekkingar á hellinum er nauðsynleg ásamt því að vera með góða lýsingu og búnað sem tekur komið til skila þessu ótrúlega náttúrufyrirbæri.
Að hafa Árna B. Stefánsson með í hellinum fyrstu dagana var algjörlega nauðsynlegt þar sem hann þekkir hellinn fram og aftur og hefur farið ótal sinnum þangað.
Til þess að skanna hellinn var notast við Faro Focus S70 3D laser skanna, sérhannaðan ljósabúnað sem Árni B. Stefánsson smíðaði, ásamt öðru. En mikilvægast af þessum búnaði er skanninn og lýsingin. Að skanna hellinn í lit er gríðarlega mikilvægt fyrir gæði gagnanna og raun forsenda þess að við fórum út í þetta.

 

– Tæknilegar upplýsingar
Skönnunin fór fram sumarið 2020.
3D laser skannaða hellalíkanið samanstendur af rúmlega 400 skönnum í ljósmyndagæðum.
Yfirborðslíkanið af svæðinu var gert með rúmlega 3000 drónaljósmyndum.


Hluti af yfirlitsmynd af Stefánshelli

 

Hér er hægt að skoða hluta af hellinum í 360° myndum, ýtið á myndina til að snúa henni. Og hægt er að færa sig á milli mynda líka.

– Eftirvinnslan
Eftirvinnslan á svona verkefni er talsverð, enda mjög umfangsmikið.
Samsetning, hreinsun og litaleiðrétting á laser skönnum.
Gerðum þríhyrningalíkan (mesh) þar sem bæði drónamyndirnar og laser skönnin voru sett saman í heildarlíkan.
Svo er það á verkefnalistanum að gera sýndarveruleikalíkan þar sem hægt er að skoða sig um í hellinum.

 

– Möguleikarnir á notkun svona gagna fyrir hraunhella
Auðvitað er það sýna fólki hversu heillandi hraunhellar eru.
Hraunhellarannsóknir, s.s. hraunrennsli og myndun hraunhella.
Eftirlit, fylgjast með hrörnun hellisins, hruni og breytingum, öryggismál.
Kynna hraunhella landsins og Ísland á einstakan hátt. Nýta í ferðaþjónustu, til ímyndarsköpunar o.fl.
Gerð heimsóknarhæfs sýndarveruleikalíkans, þar sem hægt er að sýna hellinn án mikillar fyrirhafnar og jafnvel endurgera dropsteinsmyndanir hellisins, veröld sem var.
Leggja grunn að verndun, varðveislu og betri skilningi á viðkvæmu umhverfi og nýtingu hraunhella.
Sýna fram á að gerlegt er að nýta þrívíddarlíkön í ljósmyndagæðum til að hanna og sníða gönguleiðir, hanna og koma fyrir búnaði til aðgengisstýringar og annað þess háttar. Jafnt í Stefánshelli sem öðrum hellum.
Vekja áhuga fólks á hraunhellum, hjá okkur hefur svo sannarlega vaknað áhugi á þessum einstöku náttúruundrum og sýna fram á mikilvægi verndar og varðveislu þessara sérstæðu, viðkvæmu og eftirsóknarverðu náttúruminja.


Hluti af búnaðinum okkar við bílastæðið að Stefánshelli

 


Mynd úr punktaskýslíkaninu af okkar af Stefánshelli, aðalopið sést þarna koma upp úr hellisgöngunum.

– Enn fleiri möguleikar við nýtingu svona gagna
Hérna er það nánast hugmyndaflugið sem takmarkar notkunina…
Svona líkan er hægt að gera af nánast hverju sem er.
Útbúa líkan til 3D prentunar.
Útbúa gögn til að nýta til rannsókna ýmis konar.
Gera líkan sem hægt er að setja inn í tölvuleiki.
… Þetta er eingungis örfáir af þeim möguleikum sem svona líkön bjóða upp á.

 

– Aðrar upplýsingar
RÚV gerði svo góða umfjöllun um þetta verkefni okkar, hérna er linkur á það:
Risahellir í þrívídd: „Í rauninni algjörlega galið“
Árni og Nonni að taka myndir
Árni B. Stefánsson og Jón Bergmann að taka myndir af yfirborðinu við Stefánshelli.