Í sumar og haust höfum við verið að vinna að ótrúlega spennandi verkefni sem okkur langar að deila með ykkur.
Í samstarfi við Fjörgyn ses. og Árna B. Stefánsson þrívíddarskönnuðum við efri hluta Surtshelliskerfisins í Hallmundarhrauni, Stefánshellii, sem er um 1520 m langt völundarhús hraunganga og vinnum nú að stafrænni kortlagningu og gerð sýnarveruleikalíkans af hellinum.
Ástæður þess að við fórum út í þetta?
– Aðallega er þetta gert fyrir Stefánshelli sjálfan, á forsendum hellisins, forsendum íslenskrar náttúru, náttúrunnar vegna. Með það í huga að geta boðið almenningi, og áhrifafólki í sýndarveruleikaheimsókn í þennan áhrifamikla og sérstæða hraunhelli með varðveislu hans, sýningu og öryggi gesta í huga. Í framhaldi má hugsa sér að færa hellinn í upprunalegt horf á stafrænu formi. Endurgera veröld sem var. Skilja trega og eftirsjá Stefáns Ólafssonar í Kalmanstungu, sem uppgötvaði hellinn 16 ára gamall og kannaði fyrstur manna.
– Þetta verkefni er sérkennilega áhugavert, já grípandi, ásamt því að vera bæði spennandi og tæknilega og líkamlega krefjandi.
– Viðkvæmustu myndanir íslenskrar náttúru, dropsteinsmyndanir hraunhellanna, friðlýstar náttúruminjar, hafa látið stórkostlega á sjá af manna völdum. Óraunhæft og í raun ógerlegt er að gera þrönga og viðkvæma dropsteinshella heimsóknarhæfa nema í afar takmörkuðum mæli. Eitt markmiða okkar er að sýna fram á raunhæfi og mikilvægi stafrænnar þrívíddarskjalfestingar viðkvæmustu hraunhella landins og um leið að sýna fram á að gera má þá heimsóknarhæfa á áhrifaríkan hátt í sýndarveruleika.
Stefánshellisverkefnið er risavaxið á mælikvarða Punktaskýs og jafnvel flesta mælikvarða svona verkefna. Áhugi og sérfræðikunnátta Árna á hraunhellum drifu verkefnið af stað. Við komum svo inn í það með honum og saman vinnum við nú að gerð heimsóknarhæfs sýndarveruleikalíkans af völundarhúsi Stefánshellis.
Þetta er ennþá allt í vinnslu. Þrívíddarskönnuninni er lokið eftir fjölmargar ferðir og heilu dagana neðanjarðar. Smám saman er þetta svo að taka á sig mynd.
Við munum setja meira inn tengt þessu stærsta og sérstæðasta verkefni okkar hérna inn á næstunni.
Eftir því sem við komumst næst eru gæði þeirra gagna sem við erum að vinna með, með því besta, ef ekki það besta sem þekkist í heiminum í dag.
Í hvað nýtast gögn sem þessi, fyrir utan það að sýna hvað við getum gert og til að sýna hversu heillandi svona hellar eru?
– Hraunhellarannsóknir, s.s. hraunrennsli og myndun hraunhella.
– Eftirlit, fylgjast með hrörnun hellisins, hruni og breytingum, öryggismál.
– Kynna hraunhella landsins og Ísland á einstakan hátt. Nýta í ferðaþjónustu, til ímyndarsköpunar o.fl.
– Gerð heimsóknarhæfs sýndarveruleikalíkans, þar sem hægt er að sýna hellinn án mikillar fyrirhafnar og jafnvel endurgera dropsteinsmyndanir hellisins, veröld sem var.
– Leggja grunn að verndun, varðveislu og betri skilningi á viðkvæmu umhverfi og nýtingu hraunhella.
– Sýna fram á að gerlegt er að nýta þrívíddarlíkön í ljósmyndagæðum til að hanna og sníða gönguleiðir, hanna og koma fyrir búnaði til aðgengisstýringar og annað þess háttar. Jafnt í Stefánshelli sem öðrum hellum.
– Vekja áhuga fólks á hraunhellum, hjá okkur hefur svo sannarlega vaknað áhugi á þessum einstöku náttúruundrum og sýna fram á mikilvægi verndar og varðveislu þessara sérstæðu, viðkvæmu og eftirsóknarverðu náttúruminja.
Ef þið hafið áhuga á því að kynnast betur því sem við höfum verið að gera þá hafið þið bara endilega samband við okkur.